145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Þetta er liður í frumvarpinu sem hefur óskaplega lítið verið ræddur hér, því það er kannski stóra málið, þ.e. niðurlagning á Þróunarsamvinnustofnun, sem meginkraftur í ræðum hv. þingmanna hefur farið í og rök fyrir því hvers vegna við teljum það svo slæmt. Þetta atriði hefur setið svolítið á hakanum í umræðunni og menn hafa velt því miklu minna fyrir sér. Ég veit svo sem ekki hversu mikið þetta atriði var rætt í hv. utanríkismálanefnd á síðasta þingi þar sem ég sat ekki í nefndinni, en þetta er ekki eitt af stóru atriðunum sem við höfum verið að ræða núna í nefndinni.

Ég held að það sé alveg rétt að það geti verið hættulegt að fara að blanda svona ólíkum hlutum saman, ég er sammála hv. þingmanni um það og ég sé ekki alveg hvernig þetta samræmist. Þetta eru gríðarlega ólíkir hlutir. Auðvitað er friðargæsla nauðsynleg, en ég hef alla vega talið að í þróunarsamvinnu eigi aðalpúðrið, ef svo má segja, að fara í að byggja upp innviði landa og sinna grunnþörfum, svo sem að byggja brunna, byggja kamra, tryggja heilsugæslu og slíkt. Mér finnst þarna verið að blanda saman hlutum sem eiga kannski að vera í ólíkum kanölum.