145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:15]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir segir að sátt hafi verið að taka málið úr utanríkismálanefnd. Það er, vil ég leyfa mér að segja, fulldjúpt í árinni tekið. Ég get ekki tekið undir að það hafi verið sátt um það, en það er vissulega rétt að það lagðist enginn gegn því á þeim tímapunkti að málið væri tekið út svo að því sé til haga haldið. Það er ansi stór blæbrigðamunur þar á að mínu mati.

Gott og vel. Af gestakomum og umræðum í nefnd dregur auðvitað hver og einn hv. þingmaður sínar ályktanir. Ég og hv. þingmaður höfum greinilega komist að ólíkri niðurstöðu. Það er gott og vel, þannig er pólitík. Líkt og hv. þingmaður sagði þá erum við einfaldlega ósammála en mér finnst við meira en bara ósammála, við erum alveg rosalega ósammála. Það verður ekkert af því skafið að þeir sem eru ósammála þessu máli eru mjög ósáttir við það. Okkur finnst hv. þingmenn meiri hlutans ekki hafa gert mjög mikið af því að koma með sín rök í umræðuna, en þó í einstaka andsvari sem er vissulega ágætt.

Þinginu tókst fyrir skömmu að lenda erfiðu máli í sátt — vegna þess hversu gríðarlega djúp gjáin er hérna á milli okkar því að eins og hv. þingmaður benti á þá er búið að ræða málið í marga klukkutíma, bæði í þingsal og í nefnd, en við erum ekkert að þokast saman, það eru frekar held ég að verða enn meiri átök í málinu — og þá langar mig hreinlega að velta þessu upp: Ættum við ekki hreinlega að (Forseti hringir.) taka málið einhvern veginn til okkar aftur og reyna að koma því í sáttafarveg frekar en að standa hér tímunum (Forseti hringir.) saman og rífast?