145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:21]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja ræðu mína á brýningu til hæstv. forseta að fara nú að taka sterkari afstöðu með þinginu. Í þessum málum erum við enn eina ferðina að sjá hvernig framkvæmdarvaldið hunsar gersamlega þingið og lítur á það sem þreytandi formsatriði að mál þurfi að fara hér í gegn. Við höfum fjölmörg dæmi um það á þessu kjörtímabili að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn virði að vettugi vilja minni hlutans. Við höfum til dæmis málið um gjaldeyrishöft þar sem keyrð var í gegn ákveðin lagabreyting án þess að við fengjum fullnægjandi upplýsingar. Við höfum sem dæmi verklagið við rammaáætlun þar sem hana átti að eyðileggja út af pólitík en minni hlutinn náði að stoppa það. Við höfum séð þess merki þegar utanríkisráðherra fór fram hjá þinginu með bréfasendingum til ESB um utanríkisstefnu Íslendinga í stað þess að fara með þingsályktun í gegnum þingið enda þorði hann það ekki. Við höfum séð hvernig hæstv. forsætisráðherra leyfir sér að hunsa beiðni þingmanna, þar á meðal mína, um umræðu um verðtryggingu, þótt augljóst sé samkvæmt þingsköpum að hann eigi að verða við slíkum beiðnum. Ég spyr mig, herra forseti: Á hvaða leið erum við með Alþingi Íslendinga?

Það var einn hv. þingmaður, sem enn situr hér í þessum sal, sem benti á það í kringum hrun að Alþingi væri eins og afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið, væri eins og kassadama hér. Svo kom hrun og svo kom vinstri stjórn. Þá var ekki síður gagnrýnin umræða. Fólk var ekki með þöggunartilburði gagnvart stjórnarliðum. Hér voru oft lífleg skoðanaskipti. Sumum þótti nóg um. En þar var gagnrýnin umræða um stór mál. Á þessu þingi heyrist vart í stjórnarliðum. Látum vera ef þeir væru alla vega tilbúnir til að koma og lýsa yfir stuðningi við þau mál sem hér er verið að keyra í gegn. En nei, þeir láta ekki svo lítið að koma hér upp í pontu nema í störfum þingsins. Og einstaka þingmenn, ég ætla ekki að gera lítið úr því — auðvitað er hér fjöldi þingmanna sem stígur á stokk en þegar verið er að ræða stór og umdeild mál, sem þeir síðan styðja hér í atkvæðagreiðslu, hafa fæstir þeirra haft fyrir því að færa rök fyrir stuðningi sínum.

Það var líka þannig á síðasta kjörtímabili að þá urðu miklar breytingar því að þá skyndilega fóru þingmannamál að fá samþykki. Það hefur eimt eftir af því á þessu kjörtímabili en það dregur þó, að því er virðist, úr því. Ég vona að það sé breyting sem komin er til að vera.

Ég vil skora á hæstv. forseta að slá nú á puttana á framkvæmdarvaldinu, gera því grein fyrir að þingræði ríkir á Íslandi, og svo ættu þingflokksformenn stjórnarflokkanna að taka alvarlega umræðu við þingflokka sína og brýna fyrir þingmönnum það hlutverk sem þeir hafa samkvæmt stjórnarskrá. Það er ekki lítilþægni við ráðherrana heldur það að vinna fyrir hagsmuni almennings á Íslandi.

Hæstv. ráðherra hefur ekki séð sér fært að vera viðstaddur umræðuna þegar hann ætlar að leggja niður einu undirstofnunina við ráðuneyti sitt. Það er út af því, herra forseti, að hann er í sérstakri fundaherferð Framsóknarflokksins sem heitir „Hagur heimilanna — höftin losuð“. Ég man ekki hvort eru tvær vikur síðan ég stóð hér og kallaði eftir ítarlegum upplýsingum varðandi losun haftanna. Það var ekki vilji stjórnarmeirihlutans eða framkvæmdarvaldsins að ræða það hér í þingsal. Nei. En nú er Framsóknarflokkurinn fjarri þingstörfunum til að ræða losun hafta við samflokksmenn sína. Þetta er virðing Framsóknarflokksins fyrir Alþingi. Á sama tíma hunsar utanríkisráðherra starfsskyldur sínar til að búa til eitthvert „propaganda“ varðandi aðgerðir þeirra. Það hefði verið ánægjulegt ef þingmennirnir sem hér eru auglýstir, hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Elsa Lára Arnardóttir, Ásmundur Einar Daðason, Höskuldur Þór Þórhallsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson og Gunnar Bragi Sveinsson, hefðu látið svo lítið að taka þátt í umræðunni um losun fjármagnshafta, taka hér þátt í umræðunni um skort á upplýsingum og fullkomna vanvirðu við minni hlutann hér í þinginu um þá stóru efnahagsframkvæmd. Nei, hún er bara til umræðu þegar þeim hentar á þeim forsendum sem þeim hentar, á þeim stað sem þeim hentar sem er ekki þingið. Sama leik leikur Framsóknarflokkurinn nú. Þau skrifa undir nefndarálit en láta ekki svo lítið að vera hér og taka þátt í umræðum. Þetta er skammarlegt. Ég legg til að reynt verði að gera bragarbót á þessu til að Alþingi verði ekki aftur að afgreiðslustofnun með kassadömu.

Þá komum við að blessuðu frumvarpinu. Það hefur farið tvisvar í gegnum 1. umr., komst ekki til 2. umr. síðast en nú er það komið hér inn og virðist eitt af helstu stefnumálum ríkisstjórnarinnar að leggja niður þessa stofnun sem Þróunarsamvinnustofnun er. Hún á að fara inn í ráðuneyti utanríkismála sem sér um diplómatísk samskipti Íslendinga við önnur ríki. En hver eru viðfangsefni Þróunarsamvinnustofnunar? Þróunarsamvinnustofnun vinnur að þróunarmálum með samstarfsríkjum sínum til þess að hjálpa og koma, í samstarfi við ríkin sjálf, þeim frá fátækt til álna. Það eru 900 milljónir manns, tæpur einn sjöundi hluti mannkyns, sem hafa ekki aðgengi að hreinu vatni. 1,5 milljónir barna undir fimm ára aldri deyja árlega af þeim sökum. Það eru miklu fleiri börn en fimm ára börn og yngri á öllum Norðurlöndum. Sem deyja því þau fá ekki vatn. Hlutverk Þróunarsamvinnustofnunar hefur meðal annars, það hefur mjög víðtækt hlutverk, bæði á sviði mennta- og heilbrigðismála, en mikilvægur liður í starfi hennar hefur til að mynda verið að sjá til þess að það kæmu brunnar svo að fólk hefði aðgengi að vatni án þess að þurfa að ganga langar leiðir, sem tekur tíma frá menntun og skólagöngu og ræktun og matseld. Það eru viðfangsefni sem þessi Þróunarsamvinnustofnun er með á sínum snærum. Þetta eru verkefni þar sem sérfræðikunnátta skiptir máli og menn eru með einbeittan fókus á þróunarstörf. Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans eru ráðuneyti allt annars eðlis. Þar er nefnt að utanríkisráðuneytið byggi einmitt á því að þar séu starfsmenn „generalistar“. Þeir eru til dæmis flutningsskyldir á milli starfsstöðva, skrifstofa og fagsviða og hafa því takmarkaðra ráðrúm til að byggja upp drjúga fagþekkingu. Ég sé ekki með neinu móti rökstutt í nefndaráliti meiri hlutans né í greinargerðinni hvernig á að vinna með þessar andstæður, þessa þversögn, í framhaldinu. Það er búið að fara mjög vel yfir það hér hvað við í minni hlutanum sjáum gegn þessu. Bæði teljum við að sú skýrsla sem unnin var af starfsmanni Rauða krossins sé ekki það plagg að hægt sé að byggja á henni nýja stefnu í þróunarsamvinnu og breyta algerlega um kúrs. Það hefur verið vitnað í DAC sem er alþjóðlega þróunarsamvinnunefndin um hversu vel ÞSSÍ eða Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi staðið sig á sviði þróunarmála.

Ég tek undir þær áhyggjur sem fram hafa komið og nefndarálit minni hlutans varðandi það að leggja niður heila stofnun án þess að fyrir liggi fagleg rök. Það eru ekki einu sinni fjárhagsleg rök heldur einhvers konar meinloka að stofnunin sé betur komin inni í ráðuneyti þótt hún henti augljóslega ekki þar inn. Jafnvel eru frekar rök sem hníga að því að henni séu falin frekari verkefni frá ráðuneytinu.

Í nefndaráliti minni hlutans er bent á að þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona hugmyndir koma fram. Það hafi hvorki meira né minna en sex sinnum á síðustu 20 árum verið bent á þetta af starfsmönnum í utanríkisráðuneytinu sem hafi viljað þetta. Enginn ráðherra hingað til hafi eftir skoðun á málinu getað verið sammála því. Það er svo ágætlega orðað hér í nefndaráliti minni hlutans að kannski sé það bara reynsluleysi ráðuneytisins, að hafa bara eina undirstofnun og kunna ekki almennilega á samskipti við undirstofnun og að framselja ábyrgð, eins og segir í nefndarálitinu.

Þessi tilhögun er líka þvert á leiðbeiningar Ríkisendurskoðunar sem telur mikilvægt að stefnumótun og eftirlit séu á hendi ráðuneytis og undirstofnunin vinni í samræmi við stefnuna. Það er líka þessi DAC-skýrsla sem gerð var um Þróunarsamvinnustofnun. Hún er endalaust lof á íslenska þróunarsamvinnu. Þar að auki er að fara fram á vegum stofnunarinnar svokölluð jafningjaúttekt sem á að liggja fyrir á næsta ári. Þetta er jafningjarýni. Þar á meðal annars að endurskoða fyrirkomulag rammans um þróunarsamvinnu Íslands. Það er algerlega óskiljanlegt, ef metnaður er einhver fyrir þróunarsamvinnu, að ekki eigi að bíða eftir þessari úttekt.

Eins og ég kom inn á í andsvari er metnaður núverandi ríkisstjórnar fyrir þróunarsamvinnu því miður lítill. Henni hefur verið látið blæða til að hægt væri að auka tekjur þeirra sem best hafa það í samfélaginu. Þá fann ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fólk sem hún taldi þess umkomið að bera þær byrðar og það eru meðal annars þær 900 milljónir manns sem ekki hafa aðgengi að hreinu vatni. Það er fólkið sem er eðlilegt að fái minni fjárframlög úr íslenskum ríkissjóði þegar lækka þarf veiðigjöld.

Það var nú svo að árið 2011 þegar við vorum að bjarga ríkissjóði frá gjaldþroti, og rétt búið að komast fyrir það og enn erfiður niðurskurður, var samt sem áður samþykkt hér mjög metnaðarfull áætlun um þróunarsamvinnu, um að frá og með árinu 2017 færu 0,7% af vergri landsframleiðslu til þróunarsamvinnu. Eru þetta viðmið frá Sameinuðu þjóðunum sem við jafnaðar- og vinstri menn vildum standa við. Við vildum standa við þessa alþjóðlegu skuldbindingu okkar. Við vildum sýna þann siðferðislega styrk og þá ábyrgð að Ísland tæki þátt í að koma fólki frá örbirgð til velsældar hvar sem það býr í heiminum. Ný ríkisstjórn fann sig náttúrulega ekki í því, eins og ég hef komið inn á, að fylgja þessari áætlun. Núna þegar þeir ætla að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun skal engan undra að við hér í minni hlutanum fáum hroll.

Ég var búinn að lýsa því fyrr í dag að mér þætti vandræðalegt hvernig meiri hluti utanríkismálanefndar afgreiddi þetta mál og lét nægja að byggja á nefndaráliti fyrri afgreiðslu. Formaður utanríkismálanefndar kom hér svo upp og talaði eins og sjaldan hefði mál fengið jafn faglega og góða umfjöllun og einmitt í nefndinni hjá henni varðandi þetta mál. Ég veit að það er ekki rétt. Það er ekki ánægja hjá minni hlutanum með það hvernig þetta mál var afgreitt þar í gegn.

Síðan er hér nokkuð sem var rætt í meirihlutaálitinu, sem mér finnst verulega óþægilegt, að það á að taka núverandi þróunarsamvinnunefnd og samstarfsráð um þróunarsamvinnu, þar sem eiga sæti ýmsir aðilar frá ýmsum samtökum sem eru ráðgefandi, og leggja niður. Gerðar hafa verið einhverjar athugasemdir við að starfið mætti vera skilvirkara og eitthvað slíkt. Svo segir í nefndarálitinu að Alþingi kjósi sjö fulltrúa í þróunarsamvinnunefndina. Svo tilnefni ráðherra fulltrúa í hana og henni sé ætlað að tryggja aðkomu fulltrúa þingflokka að stefnumarkandi umræðu og ákvörðunum ráðherra um alþjóðlega þróunarsamvinnu til lengri tíma. Svo er þetta samstarfsráð um alþjóðlega þróunarsamvinnu jafnframt. Þetta hafi verið óljós verkaskipting — og svo hefur komið fram í skýrslu Þóris Guðmundssonar, sem hér er vitnað í, að starfsemi þróunarsamvinnunefndar hafi verið tilgangslítil og að upplýsingar berist treglega til þingflokka Alþingis.

Mér finnst þetta bara til vansa, herra forseti. Við í Samfylkingunni veljum okkar fulltrúa í ýmis verkefni og veljum fólk sem er best til þess fallið. Það á líka við um þróunarsamvinnunefnd. Þetta er fólk, sem við erum í reglulegu sambandi við, mismiklu eftir efnum og aðstæðum, en þegar þörf er á köllum við þessa fulltrúa til okkar til skrafs og ráðagerða. Þannig virka hlutirnir. Þú tilnefnir einhvern í verkefni og síðan sækir hann umboð sitt til þess sem tilnefndi hann. Þannig virkar það í öllu félagsstarfi og líka í stjórnsýslunni. Nú á að leggja þetta niður. Til þess að þingmenn sem virðast ekki hafa burði til að eiga samskipti við þá sem þeir velja til verkefna geti örugglega verið með allt á hreinu ætla þeir sjálfir að setjast í nefndina. Ég lít á þetta sem dúsu til þægra þingmanna og einhvers konar ferðaklúbb. Þingmenn hafa mismikla innsýn í þróunarsamvinnu. Þingið getur verið misvel skipað á hverjum tíma. En í þróunarsamvinnunefnd höfum við verið að velja fólk sem hefur sérstaka innsýn og sérstaka þekkingu á þessum málum. Þetta er því mikil afturför, herra forseti, og engin almennileg rök hafa verið færð fyrir að það eigi að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun.