145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:42]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirferð hennar. Það vöknuðu spurningar við að hlusta á þá yfirferð, það er eins með hv. þingmann og mig að erfitt er einhvern veginn að skilja hvað hangir á spýtunni. Það eru fá og miklu fátæklegri rök, minni og vesælli, og ekki eru þau heldur borin fram, en þau rök sem við höfum verið að færa fyrir því að láta stofnunina vera. Stofnun sem hefur vakið athygli fyrir fagmennsku og góð störf, ekki bara hér innan lands heldur erlendis, og leitað hefur verið til með fagleg ráð. Þetta er sú stofnun sem við getum verið hvað einna stoltust af og Ríkisendurskoðun hefur á 20 ára ferli aldrei gert athugasemdir við störf þeirrar stofnunar.

Þess vegna vil ég beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvort hún mundi telja að það væri sáttaleið í málinu að við í þessum þingsal mundum láta staðar numið með málið og bíða eftir þeirri úttekt sem hvort eð er er í gangi á vegum DAC, sem er fagleg nefnd sem gerir úttekt á þessu. Svo hins vegar að tengja það inn í umræðuna varðandi stofnunina og þetta hugtak, traust, og mikilvægi þess í stofnun sem þessari.