145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:44]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka andsvarið. Í fyrsta lagi tel ég að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi sýnt það með verkum sínum að hún leggur ekki sérstaka áherslu á þróunarsamvinnu og í öðru lagi virðist vera sem hæstv. utanríkisráðherra sé ekki nógu sterkur á svellinu varðandi sýn í þessum málaflokki og hafi látið embættismenn stjórna ferðinni.

Við sjáum það hér að enginn stjórnarliði brennur fyrir þessu máli. Það er enginn sem hefur verulega trú á því að við séum að stíga heillavænlegt skref til að efla þróunarsamvinnu. Ég tek undir það með hv. þm. Lárusi Ástmari Hannessyni að við eigum að bíða úttektar DAC. Hún er væntanleg á næsta ári. Það liggur ekkert á í þessu. Við erum með samþykkta þróunarsamvinnustefnu sem verið er að vinna eftir eftir samþykkt Alþingis, og það er eðlilegt þegar við fjöllum um hvaða málaflokk sem er. Þetta er mikilvægur málaflokkur og við eigum að meðhöndla alla málaflokka af virðingu. Við eigum ekki að gera lítið úr þeirri sérþekkingu sem til staðar er, þó að við sem einstaka þingmenn séum kannski ekki sérstaklega vel að okkur í viðkomandi málaflokki.

Ég tel það mjög góða tillögu hjá þingmanninum að við leggjum til að málinu verði frestað þar til jafningjarýnin frá DAC liggur fyrir og það er strax á næsta ári. Það er ekki mikið eftir af árinu 2015 þegar komið er fram yfir miðjan nóvember.