145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hrossakaup. Núverandi hæstv. ríkisstjórn lítur nú svo á að loftslagsváin feli í sér sérstök tækifæri fyrir Ísland og það hefur líka komið fram að hæstv. ríkisstjórn telur að alþjóðleg þróunarsamvinna eigi líka að vera þannig að hún sé til hagnaðar fyrir Ísland. Ég ætla kannski ekki að fara að fabúlera um hvaða hagsmunir kunni að liggja að baki, en bara þessar tvær yfirlýsingar gefa okkur í skyn að ábyrgðartilfinningin er ekki ýkja mikil þegar kemur að stórum hnattrænum vandamálum.

Svo vil ég segja að ég er örlítið ósammála þingmanninum hvað varðar pólitíkina, þróunarsamvinna er auðvitað hápólitísk. Hún snýst um það hvaða sýn við höfum á misskiptingu. Hvaða sýn höfum við á misskiptingu valds og auðs? Hvaða sýn höfum við á þá ábyrgð sem við berum sem ríkt samfélag í alþjóðasamfélaginu? Ég held einfaldlega að það sé þannig að núverandi ríkisstjórn líti svo á að flest eigi að vera til hagsbóta. Ef við tökum þátt í einhverju þá eigi það að vera til þess að við græðum á því fyrst og fremst, en að önnur markmið um siðferðislegar skyldur og slíkt fái að lúta í lægra haldi. Tilfinning okkar sem tölum hér í dag er auðvitað sú að þetta mál sé litað af þeirri pólitísku sýn.