145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:53]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er hjartanlega sammála hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur og ég ætla að nota tækifærið fyrst hún fór í andsvar við mig og þakka henni fyrir frábæra ræðu sem hún hélt áðan um misskiptingu og arðrán. Þróunarsamvinna er auðvitað margháttuð, en grunnurinn í þróunarsamvinnu er að tryggja fólki aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun. Við erum að tryggja fólki aðgengi að hreinu vatni. Við erum að búa til heilsugæslur svo konur fái aðstoð við að fæða börn. Hér áður fyrr var það helsta dánarorsök kvenna á Íslandi að þær dóu af barnsförum. Þetta er veruleiki allt of margra kvenna í fátækustu ríkjum heims enn þann dag í dag. Og þær deyja ekki aðeins af barnsförum, þær deyja frá fjölda barna. Þetta er fyrir utan HIV-faraldurinn sem verið hefur í mörgum fátækustu ríkjunum. Þessi tegund af þróunarsamvinnu felur í sér uppbyggingu á innviðum, hún felur í sér valdeflingu, því að best er að ríki geti sjálf stjórnað uppbyggingu og að félagasamtök í löndunum og stjórnsýslan fái aðstoð til þess að geta síðan gert þetta á eigin forsendum. En þessi vinna á ekki heima í utanríkisráðuneytinu þar sem diplómasía og hagsmunagæsla fyrir Ísland er, eðli málsins samkvæmt, í forgrunni. Hér erum við ekki að hugsa um hagsmuni Íslands. Við erum að hugsa um hagsmuni þeirra ríkja sem við erum í þróunarsamvinnu við sem eru auðvitað að lokum hagsmunir okkar allra, því að það byggir undir frið hér í heimi ef fólk býr við gott atlæti.