145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:57]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ágæt spurning, en ríkisstjórnin er búin að svara henni neitandi því að nýverið tók hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra ákveðna málaflokka út úr ráðuneytinu og setti í sérstaka undirstofnun. Það er líka þannig að þarna er talað um samlegðaráhrif og hagræðingu eða hagkvæmni, en það er samt ekki samt sýnt fram á að verið sé að spara fjármuni með þessu og er það vel því að við viljum ekki draga enn frekar úr framlögum til þróunarsamvinnu. En það er heldur enginn í minni hlutanum sem mælir gegn því að það verði gerðar einhverjar breytingar á skipulaginu.

Það hefur verið bent á að það er að öllum líkindum of lítið af tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands inni í Þróunarsamvinnustofnun. Og við erum að fá jafningjarýni um rammann. Við í minni hlutanum erum því ekkert að leggjast gegn því að farið verði yfir það hvort við eigum að breyta aðeins fyrirkomulaginu. En við leggjumst gegn því að sú stofnun sem býr yfir sérhæfðri þekkingu og reynslu á sviði þróunarsamvinnu verði lögð niður til þess að vera sett inn í íslenska diplómasíu. Það mun draga úr þrótti hennar og það mun breyta eðli starfseminnar, starfsemi sem hefur verið lofuð af alþjóðlegum aðilum. Við ætlum að fórna stofnun sem hefur verið rekin í samræmi við reglur og Ríkisendurskoðun hefur gefið ágætiseinkunn. Það er enginn tilbúinn til þess að segja okkur af hugsjón hverju það eigi að skila fyrir þróunarsamvinnu Íslands.