145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:06]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég fór hér áðan í ræðu minni með brýningu til forseta um að taka upp hanskann fyrir þingið, slá á fingurna á framkvæmdarvaldinu og fá þingflokksformenn til að funda með sínum þingflokkum og gera þeim grein fyrir ábyrgð sinni. Nú hefur komið í ljós að forseti Alþingis stjórnar ekki dagskrá þingsins heldur gerir ríkisstjórnin það óbeint í gegnum hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur sem gaf reyndar upplýsingar um að það yrði fundur í fjárlaganefnd í fyrramálið á síðasta fundi nefndarinnar en svo heyrðu nefndarmenn það í fréttum að ekki væri við því að búast frá sama þingmanni og líkur væru á að honum yrði frestað.

Ég veit að fulltrúi Samfylkingarinnar, hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, þurfti að breyta sínum plönum því að hún ætlaði auðvitað að vera á fundinum á föstudaginn þangað til hún heyrði fréttirnar. Þá var orðið dálítið erfitt að skera úr um hvernig ætti að skipuleggja (Forseti hringir.) störf sín þegar upplýsingar sem fram komu á nefndarfundum voru svo dregnar aftur í fjölmiðlum. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Taktu stjórn á Alþingi.