145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:09]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Fyrir þá sem lásu blöðin í morgun, ég á það eftir, komu upplýsingar um að formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, hefði tilkynnt það þar að 2. umr. fjárlaga sem er áætluð næsta fimmtudag eftir viku mundi frestast. Er það virkilega rétt? Er það virkilega rétt að forseti Alþingis hafi lýst því yfir hér í morgun að hann hafi líka lesið það í blöðunum eins og aðrir þingmenn? Ég á eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sæti í forsætisnefnd og við funduðum á mánudag eins og vant er og þar var engin umræða um það.

Þar að auki vil ég taka undir þau sjónarmið sem nokkrir fulltrúar í fjárlagagnefnd hafa komið fram með, sem búa á landsbyggðinni og þurfa að sinna sínu kjördæmi og fara heim til sín jafnvel, að það er algerlega óviðunandi fyrir þá að störfum þingsins sé þannig háttað að þeir fái ef til vill að vita það einhvern tíma seinna hvort það verður fundur á morgun (Forseti hringir.) og hvort hann verður í fyrramálið eða kl. eitt eða kl. fimm. Það (Forseti hringir.) er ekki hægt að hafa þetta svona og umgangast þingmenn eins og hér kemur fram, fyrir utan að það er ekki bara hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) sem er á framsóknarfundum úti um landið, það eru ýmsir aðrir stjórnarþingmenn sem sinna ekki þingstörfum á meðan.