145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:16]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég verð að halda áfram þar sem frá var horfið áðan. Nú er komið upp að ekki liggur fyrir hvort það verði af fundi á morgun, hvort ríkisstjórnin sé búin að koma sér saman um einhverjar tillögur til að leggja fram til 2. umr., sem mér þykir afskaplega ólíklegt miðað við það að ráðherrar eru hér úti um allar koppagrundir að gera einhverja aðra hluti — nema þeir ætli að taka ákvörðun um þetta í fyrramálið og þá sjái utanríkisráðherra sér kannski fært að vera mættur í bæinn til að taka þátt í því. Alla vega finnst mér ótækt að vera í þessari óvissu og ég bið forseta um að ganga úr skugga um að ég fái að vita það innan örfárra mínútna hvort það verði fjárlaganefndarfundur á morgun eða hvort ég geti gert ráð fyrir því að fara heim til fjölskyldunnar fyrr en ég hafði ráðgert og nýtt þar með daginn betur, bæði með mínum kjósendum og minni fjölskyldu.