145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:36]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir innlegg hennar í þessa umræðu sem snýst að sjálfsögðu að stórum hluta um forgangsröðun og mat á því hvað við teljum vera forgangsröðun. Við erum að tala um stofnun sem hefur vakið athygli fyrir góð störf í Mósambík, Malaví og Úganda þar sem fólk býr við mikið hungur og bág kjör. Þetta snýst um að hjálpa því að fá vatn að drekka.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar punkt sem fram kom, þ.e. að Ríkisendurskoðun hafi margoft bent á að ekki sé rétt að framkvæmd og eftirlit sé á sömu hendi eins og stuðlað er að núna með því að taka Þróunarsamvinnustofnun Íslands sem sérstaka fagstofnun og færa undir ráðuneytið með rýrnun á gagnsæi, rýrnun á eftirliti o.s.frv. Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann hvaða farveg hún telji rétt að málið fari í að svo stöddu, eins og það er. Það er alveg ljóst að það er ekki á góðum stað og mjög eðlileg gagnrýni hefur komið hérna fram. Þetta snýst um svo miklu meira en þá menn sem hér vinna. Stofnunin fer með mikla fjármuni og Ríkisendurskoðun hefur á 20 ára ferli aldrei gert athugasemd við störf þessarar stofnunar.