145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:40]
Horfa

Lárus Ástmar Hannesson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir hennar svör. Þau voru greinargóð. Það kom skýrt fram, sem ég er algerlega sammála, að réttast væri að taka þetta mál í þann farveg að sammælast um að bíða eftir óháðu úttektinni og sjá hvert hún leiðir okkur, setja málið svo í framhaldinu í þverpólitíska nefnd og fara yfir og finna lausn á því.

Það er svo undarlegt þegar maður fer að kynna sér þetta mál að það skuli hafa komið fyrir sex sinnum á 20 árum að embættismenn innan utanríkisráðuneytisins hafi gert atlögu að stofnuninni og reynt að ná henni inn í ráðuneytið, þ.e. taka faglega stofnun, leggja niður og setja undir pólitískan ráðherra.

Það er líka sérstakt til þess að vita að Ítalir hafa horft til þessarar stofnunar til að reyna að þróa sína stofnun í þá átt sem hún vinnur og hefur vakið athygli. Það sem mér finnst enn sérstakara er að Þjóðverjar, sem við vitum að eru talsvert vandaðir í allri sinni framgöngu og vinnu, skuli líka horfa til þessarar stofnunar og vilja leita ráða um hvernig beri að gera þetta, svo vel hefur hún unnið. Þess vegna er algerlega óskiljanlegt að það eigi að fara með hana í þennan leiðangur.

Ég vil beina þeirri fyrirspurn til (Forseti hringir.) hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur hvort hún telji að fagleg þekking sé í hættu við þessa breytingu.