145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:45]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir greinargóða yfirferð á því hvernig stöðu mála er háttað. Ég tek heils hugar undir það sem þar kom fram.

Eitt sem ég rek augun í við lestur greinargerðarinnar með frumvarpinu er að mestmegnis er notuð ein heimild til að rökstyðja málið. Það er sagt, með leyfi forseta:

„Meginniðurstaða skýrslunnar er „að samhæfing allra aðila sem starfa á vegum íslenskra stjórnvalda að þróunarsamvinnu eigi að vera á einum stað. Eingöngu þannig sé hægt að hámarka líkur á mestum árangri með mestri skilvirkni.““

Nú langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður taki undir þetta og hvort betra sé að hafa einhver skipti þar á, hvort um sé að ræða, eins og sagt er fyrr í greinargerðinni, tvíhliða og fjölþjóðlega þróunarsamvinnu, það sé einhvern veginn skipt þarna á milli Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og ráðuneytisins. Það er greinilegt að það þarf einhvern veginn að koma þessu saman, ekki að það þurfi einhverja mikilvæga skýrslu til að útskýra að betra sé að hafa hlutina á einum stað en mörgum.

Mig langar að spyrja hvort hv. þingmaður sé sammála þessu og hvort hann geti sagt mér hvar þessi staður eigi að vera, hvort það hafi komið fram ábendingar um hvar best sé að hafa hann, innan ráðuneytisins eða utan. Það er það sem mig langar helst að spyrja hv. þingmann um.