145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú þekki ég ekki söguna vel en ég held að menn hafi skoðað þetta áður. Það hefur til dæmis komið fram í máli þingmanna að þetta hafi verið skoðað í utanríkisráðherratíð Davíðs Oddssonar á sínum tíma og niðurstaða hans eftir slíka úttekt hafi verið að setja allt saman inn í Þróunarsamvinnustofnun, í stað leiðarinnar sem á að fara núna, þ.e. að taka þróunarmálin og þróunarsamvinnuna alla inn í ráðuneytið. Ég hefði talið það miklu vænlegri leið. Það má alltaf gera betur í öllum verkefnum og það á örugglega við um þetta líka. En þá tel ég betra, ef fram hefur farið úttekt eins og af hálfu DAC sem var gerð fyrir nokkrum árum, sem sýnir að menn eru að gera vel og að fjármunir sem við setjum í þróunarsamvinnu í gegnum Þróunarsamvinnustofnun skila sér vel, að setja fleiri verkefni þangað og byggja undir þá stofnun og gera það faglega. Kostirnir eru þeir að þá ertu með ákveðið gagnsæi og skýrari mynd af því sem verið er að gera, auk þess sem við erum ekki að því í íslenskri stjórnsýslu að taka framkvæmd verkefna inn í ráðuneyti. Er einhver annar ráðherra að því? Það held ég ekki. Ég held að engum öðrum detti í hug að eðlilegt sé að gera það, hvort sem það er Ferðamálastofa, Vegagerðin eða hvað það er. Þetta eru allt verkefni sem krefjast einhvers konar framkvæmdar og þau eru ekki að fara í ráðuneytin.

Að þessu leyti verð ég að segja, virðulegi forseti, að ég held að það hefði örugglega mátt gera eitthvað betur og ég tel að alltaf megi gera eitthvað betur en það væri þá frekar að færa tvíhliða verkefni úr ráðuneytinu inn í Þróunarsamvinnustofnun. Eigum við ekki að bíða eftir jafningjaúttekt DAC og taka síðan ákvörðun í framhaldinu?