145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:50]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar. Nú skilst mér að í skýrslunni sem ég vitnaði í fyrr eftir Þóri Guðmundsson frá júlí 2014, um þróunarsamvinnu Íslands, skipulag, skilvirkni og árangur, hafi ekki komið fram sérstakar ábendingar um það hvort vinnan sem undir stofnunina heyrir ætti að vera innan ráðuneytisins eða í sérstofnun heldur hafi það verið svolítið opið. Síðan hafa komið fram skiptar skoðanir á því hvort starfsemin sé betur komin undir ráðuneyti eða sérstofnun.

Þegar ég les greinargerðina er þetta mjög einhliða. Það sem stingur svolítið í augu eftir að hafa lært sagnfræðileg vinnubrögð er hvað þetta eru einhliða tilvísanir, einhliða umfjöllun um málið. Það er ekkert talað um hvað hafi áður verið unnið varðandi úttekt á svona löguðu. Nú veit ég, eins og hv. þingmaður nefndi, að fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra Davíð Oddsson lét gera úttekt á sínum tíma og Illugi Gunnarsson var aðstoðarmaður hans. Þá komst núverandi hæstv. menntamálaráðherra að allt annarri niðurstöðu en núverandi hæstv. utanríkisráðherra, að það væri betra að hafa þetta allt í sérstofnun. Væri ekki ráð að reyna að fá hæstv. ráðherra Illuga Gunnarsson í þingsal? Kannski hann geti útskýrt þetta mál betur fyrir okkur.

Ég spyr hv. þingmann af einlægni: Er ekki kominn tími til að fá greinargóða umfjöllun um þetta, fá Sjálfstæðisflokkinn til að hætta að þegja þunnu hljóði þegar kemur að þessu? Svo er víst að innan Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) er fólk með greinargóðar skoðanir á málinu.