145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:24]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur fyrir mjög góða ræðu. Mér fannst hún taka mjög vel á kjarna þessa máls. Undir lok andsvara áðan sagði hv. þingmaður að það væri fyrir neðan allar hellur ef menn hygðust með einhverjum hætti blanda saman utanríkisviðskiptum og þróunarsamvinnu. Ég er þeirrar skoðunar að menn hafi ekki þann tilgang í huga þegar þeir leggja upp með þetta mál, en sporin hræða eigi að síður. Ef menn hefðu lagt fyrir sig að skoða reynslu annarra þjóða af svipuðum breytingum og hér eru lagðar til kynnu þeir að hafa staldrað við. Það er ekki langt síðan að menn réðust í breytingar á fyrirkomulagi þróunarsamvinnu í Hollandi. Þar var sú leið fetuð að taka verkefni sem voru undir sérstakri stofnun inn í ráðuneyti. Á örfáum árum hefur komið upp sterk gagnrýni á það fyrirkomulag í Hollandi vegna þess að það býður heim ákveðnum freistnivanda og stjórnmálamenn hafa fallið fyrir honum og eru gagnrýndir fyrir að blanda um of saman viðskiptahagsmunum Hollendinga og þróunarsamvinnu.

Hv. þingmaður sagði sömuleiðis að þróunarsamvinna væri þess eðlis að það væri algjörlega nauðsynlegt að skapa um hana þverpólitíska sátt. Þannig hefur það alltaf verið. Í gegnum árin hafa menn borið gæfu til þess að skapa sátt sem hefur skorið á allar flokkspólitískar línur. Það var boðið upp á það hér, en hæstv. utanríkisráðherra hefur í reynd frumkvæði að því að grýta þeirri langtímasátt sem hefur ríkt um þessi mál með því að leggja hér fram þetta umdeilda þingmál sem enginn styður.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann af því að hún er sá þeirra þingmanna sem situr á þingi sem hefur skemmstan feril hér: Hvernig finnst henni að koma inn á Alþingi Íslendinga og sjá vinnubrögð af þessu tagi? Ég segi það vegna þess að ég er búinn að vera hér í 25 ár og (Forseti hringir.) hef aldrei séð verra og minna rökstutt þingmál en það sem við erum að ræða.