145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er fullkomlega eðlilegt að þingmenn stjórnarandstöðunnar vilji fá að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra áður en þessari umræðu lýkur. Það að menn skuli ekki gefa kost á því undirstrikar það sem við höfum verið að segja, a.m.k. ég, að hér er pólitísk valdníðsla á ferðinni. Það sem hér er að gerast er að það hefur verið gerður, svo ég leggi út af orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar, pólitískur skítadíll á millum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Hæstv. utanríkisráðherra sem hefur engan stuðning fyrir málinu hefur bersýnilega samið um að það fái að komast í gegn. Og við viljum fá að vita það af hans svörum hvað það er sem hann þarf að láta í staðinn. Hitt liggur algjörlega ljóst fyrir að það er Þróunarsamvinnustofnun, fullkomlega að ósekju, sem er fórnarlamb þessa skítadíls. Það á að leggja þá stofnun niður þótt hún hafi hvarvetna hlotið afburðalof innan lands sem utan. (Forseti hringir.) Það er sanngjarnt, svo ekki sé meira sagt, að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) láti af ferðalögum sínum á millum framsóknarfélaga víðs vegar um landið og komi (Forseti hringir.) hingað til þess að sinna störfum sínum og eigi orðastað við Alþingi og standi fyrir máli sínu.