145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:39]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrst þegar ég kom hingað inn þegar þetta mál var rætt þá spurði ég: Til hvers erum við hérna eiginlega? Það var einmitt í fundarstjórn forseta, gott ef ekki á fimmtudegi, af því að hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson lét ekki sjá sig í þingsal. Mér þykir leitt að sjá hvernig farið er fyrir íslensku þingræði þegar ráðherrar sjá sér ekki einu sinni fært að eiga rökræður við þingið. Það er rökþrota maður sem þorir ekki að mæta á vettvang þar sem umræður eiga sér stað. Það er ekkert annað. Nú er klukkan orðin margt. Ég er orðin svöng og langar til þess að fara að borða. Ég legg til að þingfundi verði slitið þar sem ég held að það muni ekki hafa neitt upp á sig að halda umræðunni áfram, sér í lagi ekki eins og staðan er núna þegar við erum búin að biðja hæstv. utanríkisráðherra ítrekað um að vera hér til staðar og fáum ekkert svar.