145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þetta er nú að verða hálfleiðigjarnt. Ég held okkur öllum sem hér erum fyndist tíma okkar betur varið að ræða önnur mál sem eru á dagskrá þingsins, svo sem samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem er næsta mál á dagskrá. Ég fyrir mitt leyti er hér fyrst og fremst til að þæfa þetta mál. Ég er með öðrum orðum í málþófi sem kallað er og ég skammast mín ekki fyrir það. Hvers vegna vil ég þæfa málið? Ég vil skjóta því á frest þar til við höfum fengið því framgengt að hæstv. utanríkisráðherra komi til umræðunnar þannig að hún geti orðið málefnaleg og gefandi. Út á það gengur þessi viðleitni okkar. Við gætum alveg verið hér fram eftir kvöldi og fram eftir næstu viku að ræða þetta mál, en við ætlum að fá þessu framgengt. Við sættum okkur ekki við aðra niðurstöðu til að fá málefnalega og góða umræðu um málið. Ég spái (Forseti hringir.) því að ef það gerðist að ráðherrann kæmi hér til umræðunnar þá mundi hún styttast til mikilla muna.