145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér er mikið í mun að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason skemmti sér. Ef það er svo að ræður mínar gera hann léttari í lundu en endranær þá er ég reiðubúinn til að halda hér margar og langar ræður.

Hitt er það að ef ég horfi á hagsmuni Alþingis og lýðveldisins Íslands þá sé ég að það eru mörg mál hér sem bíða afgreiðslu þrátt fyrir þá hörðu gagnrýni sem komið hefur fram á ríkisstjórnina, m.a. af hálfu formanns fjárlaganefndar. Ég tel að tíma okkar væri miklu betur varið í að ræða þau. En hitt liggur fyrir að stjórnarandstaðan hefur ákveðinn rétt. Hún vill fá svör. Hún hefur ekki fengið þau.

Ég tek undir með hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Hér mun ekki létta ræðum fyrr en hæstv. utanríkisráðherra sýpur í sig kjark en ekki bara hveljur og kemur hingað til fundar og svarar spurningum og upplýsir til að mynda um þann skítadíl sem hann hefur gert við Sjálfstæðisflokkinn og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur með mjög ítarlegum hætti gert hér að umræðuefni.