145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:48]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Af því hv. þingmaður og formaður þingflokks Framsóknarflokksins Ásmundur Einar Daðason talar um að nefndarmenn í utanríkismálanefnd hafi setið og hlustað á umræður þá er það bara alls ekki rétt. (Gripið fram í: Jú.) Nei. Hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir er bara einn af nefndarmönnum, en það eru sex frá stjórnarmeirihlutanum og fimm hafa ekki sést hérna í dag fyrir utan hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur sem hefur verið hér af og til í dag.

Fyrir utan það að hæstv. utanríkisráðherra forsmái þingið með því að mæta ekki hér og standa fyrir máli sínu þá vil ég líka gera athugasemd, virðulegi forseti, við málsmeðferðina í utanríkismálanefnd. Umsagnarfresti lauk 14. október, málið var lítillega rætt daginn eftir á fundi og rifið út úr nefndinni 16. október, tveimur dögum eftir að umsagnarfresti lauk. Þetta eru engin vinnubrögð, virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Það er líka verið að forsmá þingið með þessu. Þetta er okkur ekki til framdráttar.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Þetta eru vonlaus vinnubrögð.