145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan að auðvitað göngum við út frá því hér í þessum sal að menn greiði atkvæði samkvæmt sinni sannfæringu, skárra væri það, rétt eins og þeir afgreiða mál út úr nefndum. Menn tala um mikil hrossakaup. Það er bara ekki svo hjá þessari ríkisstjórn að það séu hrossakaup í málum eins og lýst var hér á síðasta kjörtímabili. Það er auðvitað þannig að þegar menn koma hingað upp og lýsa hrossakaupum þá hlýtur það að vera byggt á þeirri reynslu sem var á síðasta kjörtímabili. Um það var rituð heil metsölubók fyrir jólin, held ég, fyrir tveimur eða þremur árum af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni.

Málið er auðvitað það að hér er búið að búa til risastóran úlfalda úr pínulítilli mýflugu. Og staðreyndin er sú að vel væri hægt að koma þessu máli til atkvæðagreiðslu ef stjórnarandstaðan væri ekki í andsvörum við sjálfa sig. Það er fullkomlega eðlilegt, eins og hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir kom inn á, að fara að klára þessa umræðu sem fyrst og koma málinu til atkvæðagreiðslu þannig að menn geti samkvæmt eigin sannfæringu greitt atkvæði í þessu máli. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég vil bara segja það aftur, af því að menn tala um að það þurfi að tala mikið (Forseti hringir.) og að mörg mál séu fram undan, þá vil ég enn og aftur hvetja til þess að þessum fundi verði fram haldið og jafnvel verði settur á fundur á morgun og á laugardaginn til þess að ræða þetta góða mál.