145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð að mótmæla því fyrir mitt leyti að hér sé verið að gera úlfalda úr mýflugu í þessu máli, því í mínum huga er þetta alveg gríðarlega stórt og mikilvægt mál, þ.e. mikilvægt í slæmri merkingu, vegna þess að fyrirkomulag þróunarsamvinnu skiptir afar miklu máli í þeirri heimspólitík sem við horfum upp á í dag. Það skiptir gríðarlega miklu máli hvernig ein af ríkustu þjóðum í heimi ráðstafar peningum í þróunarsamvinnu til fátækustu ríkja heims og ef það lítur svo út að verið sé að slá af faglegum kröfum af okkar hálfu og hægt sé að fara að láta einhverja aðra hagsmuni en þá sem þjóna best fátækum (Forseti hringir.) ríkjum ráða för, þá er það risamál.