145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:56]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og líklega hefur ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hafa með þessum umræðum um þetta mál í dag, hvort sem er í þingsal eða utan úr bæ, þá er mér ansi heitt í hamsi og ég hef sterkar skoðanir á því hvernig ríkar þjóðir, og þar með Ísland sem ein af ríkustu þjóðum heims, haga þróunarsamvinnu sinni.

Mér finnst að með því frumvarpi sem við ræðum hér um að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og færa alla starfsemina inn í ráðuneytið séum við að fara í ranga átt og þess vegna var það svo að mér vannst hreinlega ekki tími til í ræðu minni fyrr í dag að fara í gegnum alla þá punkta sem brenna á mér og mig langar að koma að í þessari umræðu. Ég ætla því í þessari annarri ræðu minni að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrr í dag.

Ég var þar stödd í ræðu minni að á fundum hv. utanríkismálanefndar hefur ítrekað komið fram ótti við að sú kunnátta og fagþekking á því hvernig standa skuli vel að þróunarsamvinnu, kunnátta sem er byggð upp í hinni sérhæfðu stofnun, Þróunarsamvinnustofnun, glatist með því að leggja stofnunina niður og flytja öll störfin inn í ráðuneytið. Bent hefur verið á að störf Þróunarsamvinnustofnunar kalli á það að starfsmenn hafi sérhæfingu en ráðuneytin starfi með allt öðrum hætti þar sem vinnan þar byggi meira á því að starfsmennirnir hafi almenna og breiðari þekkingu á málaflokkum. Við það bætist að starfsmenn í utanríkisþjónustunni eru flutningsskyldir sem þýðir að þeir færast á milli skrifstofa, þeir færast á milli fagsviða, þeir færast á milli starfsstöðva og þeir hafa því ekki sama svigrúm og starfsmenn fagstofnunar til að safna upp reynslu og þekkingu á því hvernig vinna eigi sem best í þróunarsamvinnu.

Þess vegna er sú hætta fyrir hendi að sú þekking sem byggst hefur upp í Þróunarsamvinnustofnun, sem ég tel mjög dýrmæta, glatist við þá breytingu sem lögð er til með frumvarpinu. Raunar má lesa það úr fjölmörgum umsögnum sem málið hefur fengið sem og jafningjarýni DAC að allir bera starfi Þróunarsamvinnustofnunar mjög jákvætt vitni og telja að það sé til fyrirmyndar hvernig unnið er þar þó svo að fjármagnið sem stofnunin hefur úr að spila mætti vera meira.

Einnig hefur verið bent á að sex sinnum hefur verið gerð atlaga að því af embættismönnum á síðustu 20 árum að fara í þá vegferð að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður og láta utanríkisráðuneytið taka alfarið við málinu. Mér sýnist því miður af umræðunni og stemningunni hér að nú kunni þetta að takast. Mér finnst það alveg hræðilegt og þess vegna stend ég hér í minni annarri ræðu og útiloka ekki að þær verði fleiri þegar hæstv. ráðherra skilar sér vonandi einhvern tímann sem fyrst í umræðuna.

Jónína Einarsdóttir prófessor sem er einhver helsti sérfræðingur okkar á sviði þróunarmála skrifaði umsögn fyrir hönd félagsvísindasviðs Háskóla Íslands. Hún, einn okkar helsti sérfræðingur, gagnrýnir frumvarpið og þá leið sem þar er lögð til og leggur raunar til að farið verði í þveröfuga átt, þ.e. að Þróunarsamvinnustofnun verði efld í stað þess að hún verði lögð niður.

Það er hálfkostulegt finnst mér að standa hér í ræðustól og vísa í að þetta sé sama niðurstaða og fyrrverandi þingmaður og ráðherra, Davíð Oddsson, komst að, en ég hef kannski í gegnum tíðina sjaldan staðið mig að að vera sammála honum. En lengi er von á einum og hér er ég bara alveg sammála og þetta er víst það sama og Davíð Oddsson lagði til á sínum tíma, eða var niðurstaða hans, að það ætti ekki að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður heldur útvíkka verksvið stofnunarinnar og fela henni að annast áfram bæði tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu í umboði ráðherra. Mér finnst vel koma til greina að fara þá leið. En miðað við hvar við erum stödd í dag og við vitum að það er von á jafningjarýni DAC eftir ekkert svo langan tíma þá ættum við að staldra við og bíða þangað til að sú rýni liggur fyrir. Það sem mér finnst að við ættum að gera þangað til í málefnum sem lúta að þróunarsamvinnu er að einbeita okkur að því að finna leiðir til þess að hækka framlagið og ná hlutfallinu upp í 0,7% sem mælt er með að ríkar og þróaðar þjóðir leggi af vergri landsframleiðslu sinni í þróunarsamvinnu og tosa það upp úr um það bil 0,21–0,22 eða 0,23% eins og það er núna. Það ætti sem sagt að vera það sem við einbeittum okkur að núna. Bíðum eftir skýrslunni og sjáum svo til, þó svo að mér finnist þessi hugmynd Jónínu Einarsdóttur og Davíðs Oddssonar sem ég vísaði í vera um margt spennandi.

Ég vil segja það aftur að í mínum huga er þróunarsamvinna risamál í þeim heimi sem við sjáum í gegnum sjónvarpið okkar á hverjum degi þar sem fólk flýr unnvörpum örbirgð, mjög margir auðvitað stríðsátök, en einnig eru margir að flýja fátækt. Þjóðir Evrópu hafa áhyggjur af öllum þeim straumi fólks sem er að koma hingað en með öflugri þróunarsamvinnu er einmitt hægt að hjálpa fólki að byggja upp líf sitt heima fyrir sem ég held að sé það sem langsamlega flestir vilja gera ef þeir fá stuðninginn.

Ef hér kemur einhvern tíma að lokum til atkvæðagreiðslu og meiri hluti verður fyrir því að samþykkja þetta frumvarp þá er alveg ljóst af umræðunni sem hefur verið bæði á síðasta þingi og í dag og í gær og verður örugglega áfram eitthvað fram í næstu viku, að það er gríðarlega djúp gjá á milli alla vega meintra stuðningsmanna frumvarpsins og þeirra sem hafa tekið hér til máls og andæft því. Þá langar mig að taka undir tillögu hv. þm. Lárusar Ástmars Hannessonar um að reyna að fá sátt í málinu og fara þá leið sem gafst svo vel fyrir skömmu þegar þingið tók mál sem var mjög mikill ágreiningur um, vann úr því og (Forseti hringir.) komst að sameiginlegri niðurstöðu sem allir gátu sæmilega sáttir við unað. Ég vona svo innilega að við berum gæfu til þess að fara þá leið (Forseti hringir.) vegna þess að ég held að það sé þróunarsamvinnu til heilla og líka pólitíkinni á Íslandi. Það er einmitt eitt af því sem svo mikið ákall er um að (Forseti hringir.) meiri hlutinn keyri ekki mál í gegn í krafti síns meiri hluta heldur leggjum við meira á okkur til að vinna okkur að góðri niðurstöðu.