145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:14]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt að því hefur verið fleygt hér úr ræðustóli, aðallega í andsvörum frá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans, að þetta sé gott mál. En það sem að ég hef ekki ennþá heyrt er með hvaða rökum er þetta gott mál. Það er bara sagt að málið sé gott en það er ekkert verið að gera til að reyna að sannfæra mig um það hvers vegna málið er gott.

Ég held að það sé nefnilega alveg rétt að þetta snýst alls ekki um þróunarsamvinnu sem einhvers konar fag eða eitthvað sem við viljum gera vel. Ég held nefnilega einmitt að það sorglega sé að þetta snúist meira um það að hafa ekki áhuga á þróunarsamvinnu.

Hv. þingmaður veltir því upp að þetta sé spurning um það hvernig við deilum með okkur verkum. Ég held að þetta sé spurning um svo miklu, miklu meira. Ég held að þetta sé spurning um það hvernig við deilum með okkur gæðum jarðar. Þetta snýst um það hvernig þeir sem eru í valdastöðu, hvernig þeir sem eru í yfirburðarstöðu þegar kemur að ríkidæmi og lífsgæðum, ætla að viðhalda forréttindastöðu sinni á kostnað hinna sem búa við örbirgð og fátækt.

Það er það sem mér finnst svo skelfilegt við þetta mál, ef ég á að vera alveg heiðarleg, og ég held að það sé nákvæmlega það sem gerist með þessu máli. Það verður svo miklu auðveldara að fela það hvernig við sem rík þjóð ætlum að viðhalda yfirburðarstöðu okkar, meðal annars vegna þess að gegnsæið minnkar og hin faglega þekking glatast.