145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem eiginlega hingað upp til að biðja hv. þm. Þorstein Sæmundsson afsökunar á því að hafa ekki tekið eftir því að hann sat þennan umrædda áttunda fund utanríkismálanefndar þegar málið var rifið út og var þar í forföllum Frosta Sigurjónssonar. Ég hafði ekki veitt því athygli að hv. þingmaður er varamaður í nefndinni og kom sem sagt þarna inn til þess að hægt væri að taka málið út.

Ég verð að játa að í umræðunni hefur ekki verið einn nefndarmaður úr nefndinni eða hv. formaður nefndarinnar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, heldur hefur varamaður komið af og til upp undir liðnum um fundarstjórn forseta til að lýsa því yfir að sjónarmið hans hafi ekkert breyst hvað varðar þetta ólukkans mál. Hafa skal það sem réttara (Forseti hringir.) er, það hafa sem sagt verið hér af og til tveir þingmenn úr utanríkismálanefnd til að vakta þetta mál en við sökum þess einn að hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra skuli ekki hafa séð sóma sinn í því að vera hér til andsvara fyrir þetta árans mál, þetta (Forseti hringir.) ólukkans mál.