145. löggjafarþing — 37. fundur,  19. nóv. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í allan dag hefur einungis einn maður haft kjark og þor til þess að koma hingað til að gera tilraunir til þess að verja hæstv. utanríkisráðherra. Nú vill svo til að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason svífur eins og fiðrildi um þingið, en meira að segja hann leggur ekki lengur í það að koma hingað til þess að verja fjarveru ráðherra síns — meira að segja honum er svo siginn larður að hann hímir frekar í afkimum í þinghúsinu en að koma og gera veikburða tilraun til þess að verja það að hæstv. ráðherra er ekki staddur hér og hefur enga burði sýnt til þess að koma hingað og verja sinn málstað.

Ég ítreka það aftur, eins og fjöldi þingmanna hefur gert hér í dag, að þessari umræðu verður ekki lokið nema hæstv. utanríkisráðherra komi til fundarins. Það liggur algjörlega ljóst fyrir, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur sagt og fleiri tekið undir með honum, (Forseti hringir.) að jafnvel þó við þurfum að vera hérna þangað til í mars þá verður þessari umræðu ekki lokið nema hæstv. utanríkisráðherra komi og standi fyrir máli sínu og (Forseti hringir.) upplýsi um þá pólitísku skítadíla sem menn hafa fullyrt að hann hafi gert til þess að reyna að (Forseti hringir.) þröngva þessu máli með pólitískri valdníðslu í gegnum þingið.