145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[15:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða við hæstv. heilbrigðisráðherra um fréttir sem hafa borist af því að til standi að bjóða út að hluta eða í heild heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu.

Við hæstv. heilbrigðisráðherra höfum áður átt ágætar samræður um hugsanlegan einkarekstur á sviði heilsugæslunnar. Ég tala fyrir hönd meiri hluta landsmanna því að samkvæmt könnunum sem hafa verið gerðar styður yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna það að stóru einingarnar í heilbrigðiskerfinu, hvort sem það eru spítalar eða heilsugæsla, séu reknar með félagslegum hætti, sem félagslegt heilbrigðiskerfi, þ.e. að hið opinbera reki þessar einingar til að tryggja sem jafnast og best aðgengi allra landsmanna að heilbrigðisþjónustu en líka vegna þess að rannsóknir sýna að heilbrigðiskerfi, sem eru rekin með þessum félagslega hætti, koma best út hvað varðar kostnað og hvað varðar lýðheilsu þar sem þau tryggja þetta jafna aðgengi óháð stétt og öðrum þáttum.

Hæstv. ráðherra hefur látið hafa það eftir sér að það skipti ekki öllu máli hver reki einingar heldur skipti mestu að hið opinbera greiði. Það er hins vegar ekki svo þegar við skoðum árangur heilbrigðisþjónustunnar sem heildar. Þá skiptir máli hver rekur og með hvaða hætti.

Við vitum að skrifað var undir yfirlýsingu í kjölfar læknasamninga þar sem sérstaklega var talað um að skoða ólík rekstrarform. Eins og ég sagði hér í upphafi þá hafa borist af því fréttir að unnið sé að því að bjóða út rekstur heilsugæslunnar.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Er það rétt? Stendur til að bjóða út rekstur heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að hluta eða í heild? Þannig að hæstv. ráðherra geti upplýst okkur hér á þinginu hvort það standi til.