145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

rekstur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[15:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég hef kynnt mér þau plögg sem heyra undir verkefnið Betri heilbrigðisþjónusta. Þar er fyrst og fremst rætt um fjármögnun og kostnað en ekki talað beinum orðum um útboð. Eins og ég skildi hæstv. ráðherra hér áðan — mig langar til að biðja hann um að skýra það fyrir mér — þá fannst mér hann segja að ekki stæði til að bjóða út rekstur þeirra heilsugæslustöðva sem eru nú þegar reknar af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, þ.e. þeirra 13 sem eru ekki í einkarekstri. Á ég þá að skilja orð hæstv. ráðherra sem svo að til standi að stofna nýja heilsugæslustöð og rekstur hennar verði boðinn út?

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við sem störfum hér á þingi séum upplýst um þessar fyrirætlanir. Þetta er hápólitískt viðfangsefni, snýst sem það hvernig kerfi við viljum hafa. Þar mælir mjög margt með hinu félagslega heilbrigðiskerfi og það telur yfirgnæfandi meiri hluti landsmanna líka samkvæmt könnunum. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að skýra betur hvort þetta sé réttur skilningur hjá mér á svari hans hér áðan.