145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

kjör öryrkja.

[15:22]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin en þau eru ekki nógu fullkomin fyrir þennan málaflokk. Það kom fram að 9,4% hækkun á grunnlífeyri hjá Tryggingastofnun er um 11 þús. kr. á mánuði. Það er nú öll hækkunin. Ef það er stærsta skref sem við höfum stigið þá er það að mínum dómi alveg skelfilega lítið skref og ekki okkur til sæmdar sem þjóð að búa þannig um hnútana.

Það voru líka jákvæðar fréttir fyrir okkur öll á þessum fundi vegna þess að í Gallup-könnun sem Öryrkjabandalagið hafði látið gera fyrir sig, þar sem fólk var spurt hvernig það liti á þessi mál Öryrkjabandalagsins, þá kom fram að yfir 90% landsmanna telja sig ekki geta lifað á 172 þús. kr. á mánuði, sem eru þau laun sem þetta fólk fær, og 95% töldu að lífeyrisþegar ættu að hafa jafn háa eða hærri krónutöluhækkun en lægstu launþegar.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra, sem ég veit að er allur af vilja gerður til að gera vel, að hlusta á hjartsláttinn í samfélaginu, hlusta á þetta fólk. Ég skora á hann að hitta (Forseti hringir.) þetta fólk sem flutti ræður á laugardaginn og hlusta á lýsingar þess. Þær voru sláandi.