145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

kjör öryrkja.

[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki lítið úr því sem hv. þingmaður bendir hér á að hópur fólks búi við afar kröpp kjör og það hljóti að vera forgangsatriði hjá stjórnvöldum hverju sinni að reyna að rétta hlut þess. Það er þó mikilvægt að hafa hugfast að staða öryrkja og annarra lífeyrisþega, eldri borgara líka, er mjög ólík. Við verðum í aðgerðum okkar að taka mið af því að á Íslandi eru eldri borgarar sem standa alveg ágætlega, stór hluti eldri borgara, á meðan aðrir búa við mun krappari kjör og margir í hópi öryrkja eru með miklu lægri framfærslu en nokkur hér mundi treysta sér til að lifa af.

Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns fyrir að halda okkur við efnið hvað þetta varðar og vonast til þess að það geti orðið sem best samstarf í þinginu milli stjórnar og stjórnarandstöðu við vinnu fjárlaganefndar og í framhaldinu um að taka á þessum vanda.