145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

atgervisflótti ungs fólks.

[15:31]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Fólksflutningar hafa verið mikið í deiglunni undanfarið. Samkvæmt nýjustu tölfræði frá Hagstofu Íslands virðast brottfluttir íslenskir ríkisborgarar vera fleiri en aðfluttir. Samkvæmt þeim greiningum sem hafa verið gerðar undanfarið, a.m.k. í fjölmiðlum, virðist vera um menntafólk að ræða, að ungt fólk og menntað sé aðallega að flytjast úr landi. Það hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir íslensk stjórnvöld að fólk sé að flytja úr landi, að hér eigi sér stað eiginlegur atgervisflótti.

Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, benti á í grein í Kjarnanum um daginn að þetta væru ekki kreppuflutningar heldur lægi eitthvað mikið djúpstæðara þarna að baki. Það er náttúrlega eðlilegt að ungt fólk vilji skoða heiminn enda segir í Hávamálum, með leyfi forseta: „Sá einn veit er víða ratar“ — en það er hins vegar engin trygging fyrir því að þetta fólk komi til baka.

Mig langar til þess að leggja þá spurningu fyrir hæstv. forsætisráðherra hverja hann telji vera ástæðuna fyrir þeim atgervisflótta sem virðist eiga sér stað. Hvernig ætlar hæstv. ríkisstjórn undir leiðsögn hæstv. forsætisráðherra að koma til móts við þetta unga fólk sem finnur sig greinilega ekki hér á Íslandi, finnst það ekki eiga sér framtíð eða geta búið að betri framtíð fyrir börnin sín og fær jafnvel ekki vinnu við hæfi eftir langa skólagöngu? Þetta er það sem mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra um.