145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

atgervisflótti ungs fólks.

[15:33]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Það er mikilvægt að hafa hugfast að það hefur orðið sá viðsnúningur að miklu fleiri flytja til landsins en frá því, þ.e. það er ásókn í að flytja til Íslands, meiri ásókn en er í að flytja frá landinu. Það er hins vegar rétt sem hv. þingmaður bendir á að að undanförnu hafa heldur fleiri íslenskir ríkisborgarar flutt úr landi en til þess, en við getum ekki litið svo á að þeir sem koma í staðinn séu á einhvern hátt lakari fyrir landið. Við hljótum að líta á nettóniðurstöðuna. Engu að síður er ástæða til þess að velta því fyrir sér hvers vegna það hefur orðið aukning í fjölda íslenskra ríkisborgara sem flytja úr landi. Það kann að eiga sér ýmsar skýringar. Ég held að það sé rétt sem hv. þingmaður bendir á að þær séu ekki efnahagslegar, að fólk sé ekki að leita annað því að það hafi ekki tækifæri hér því að allur samanburður við til að mynda nágrannalöndin, önnur Evrópulönd, sýnir að staðan og tækifærin eru miklu meiri á Íslandi nú um stundir en víðast hvar annars staðar.

Það er hins vegar eðlilegt, og hv. þingmaður vék raunar að því, að ungt fólk langi ekki hvað síst til þess að sjá heiminn, prófa að búa á nýjum stað, kynnast lífinu í útlöndum, starfa þar um hríð eða stunda þar nám. Það getur varla verið hlutverk stjórnvalda í landi eins og Íslandi að koma í veg fyrir að fólk hafi slík tækifæri. Það skorti kannski eitthvað á að fólk hefði tækifæri til þess að prófa að búa erlendis að undanförnu, en þau tækifæri eru að verða til núna þegar fólki er kleift að selja húsið sitt eða íbúðina, það hefur bætt skuldastöðu sína og er betur í stakk búið til þess að flytja til útlanda um hríð. Það ekkert nema gott (Forseti hringir.) um það að segja. En ég tek líka undir með hv. þingmanni að auðvitað vonast ég til þess að sem flest af þessu fólki snúi aftur til Íslands.