145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

flugvallarsvæðið í Vatnsmýrinni.

158. mál
[15:48]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég var mjög undrandi þegar ég sá þessa fyrirspurn og tengingu Reykjavíkurflugvallar við umræðu um verndun menningarminja þó að vissulega séu þar menningarminjar. Í framhaldinu velti ég fyrir mér hvort það sé virkilega þannig að hv. þm. Heiða Kristín Helgadóttir líti á umferð dagsins í dag um Reykjavíkurflugvöll sem menningarminjar en ekki hluta af samfélaginu sem nú er virkt í landinu. Ég fer um flugvöllinn nokkrum sinnum í viku og sé ekki annað en að umferðin um hann sé einmitt býsna mikill mælikvarði á atvinnuástand og atvinnulíf í landinu og að þar megi sjá fólk á ferðinni til að nota og kaupa þjónustu hjá stofnunum og fyrirtækjum í höfuðborginni.