145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

trygging fyrir efndum húsaleigu.

313. mál
[15:53]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Það er algjört ófremdarástand á leigumarkaði í dag og fólk er orðið langeygt eftir úrræðum og lausnum frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra. Það eru margir óyfirstíganlegir þröskuldar sem hafa þróast út af þessu ástandi og óþolandi nýjar kröfur sem nánast enginn getur risið undir sem er á þessum markaði. Krafa um margra mánaða tryggingafé er nánast óyfirstíganleg hindrun fyrir langflesta. Þessi hindrun bætist við fleiri ókosti leigumarkaðarins hérlendis. Það er nánast ómögulegt að fá langtímaleigu og það er svo sem ekkert nýtt. Það eru mjög margir sem lenda í þeirri neyð að eiga í engin hús að venda eða taka á leigu húsnæði sem er annaðhvort of lítið, á röngum stað eða allt of dýrt miðað við ráðstöfunartekjur.

Ég vil því spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra eftirfarandi spurninga:

Í fyrsta lagi: Telur hæstv. ráðherra breytinga þörf á lagaramma um tryggingarfé eða annars konar tryggingu sem leigusalar geta krafist af leigjendum íbúðarhúsnæðis á almennum markaði?

Í annan stað: Finnst hæstv. ráðherra fyrirhugaðar breytingar á húsaleigulögum að þessu leyti fullnægjandi til að frjáls leigumarkaður geti þróast á þann veg að fólk eigi raunhæft val um að vera á leigumarkaði?

Í þriðja lagi: Finnst hæstv. ráðherra að lágtekju- og millitekjufólk eigi raunhæfan kost á að inna af hendi margra mánaða fyrirframgreiðslu á húsaleigu miðað við meðalverð á húsaleigu á höfuðborgarsvæðinu?

Í fjórða lagi og að síðustu: Hvaða aðrar leiðir leggur hæstv. ráðherra til að farnar verði til að koma til móts við eða aðstoða fólk sem á ekki rétt í félagslega húsnæðiskerfinu og á hvorki fé fyrir útborgun í eigin húsnæði né hárri kröfu um tryggingarfé vegna leiguhúsnæðis?

Nú hef ég oft komið hérna og spurt hæstv. ráðherra út í fyrirhuguð frumvörp um húsnæðiskerfið. Því miður brunnu þau inni á síðasta þingi og ég hef ekki enn séð þau frumvörp sem boðuð hafa verið og tíminn er skammur fram að fyrirhuguðu þinghléi fyrir áramót. Mig langar til að spyrja hvort það sé ekki alveg öruggt að þessi frumvörp komi inn núna og ef ekki hvort ráðherra sé ekki tilbúinn til þess að leggja fram bráðabirgðarúrræði til þess að tryggja það að fólk hafi þó þak yfir höfuðið um hátíðirnar.