145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

trygging fyrir efndum húsaleigu.

313. mál
[16:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birgitta Jónsdóttir) (P):

Forseti. Ég þakka svörin. Mér finnst samt ófullnægjandi að fá ekki skýrari mynd af því hvenær ráðherra leggur til að þessi mál verði kláruð á Alþingi. Hver einasti mánuður skiptir máli. Nú erum við búin að bíða ansi lengi. Ég veit að það á líka við um mörg flokkssystkin hæstv. ráðherra.

Í frumvarpinu sem var lagt fyrir áður var til dæmis í 21. gr. lagt til að horfið yrði frá því að telja sjálfskuldarábyrgð þriðja aðila til tryggingarforma. Mig langar til að spyrja: Af hverju? Það getur oft og tíðum verið eini möguleiki fólks. Sumir geta bara ekki annað. Á fólk að fara að taka smálán til þess að geta átt fyrir útborgun? Hvers konar vítahring er verið að leggja til fyrir þá sem eru í vandræðum með að reiða fram svona háar upphæðir?

Mig langar líka til þess að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi einhverja hugmynd um af hverju — áður fyrr var fyrirkomulagið yfirleitt þannig að maður lagði fram bankaábyrgð eða tryggingarvíxil — sé ekki lögð meiri áhersla á það í staðinn fyrir að fólk leggi fram reiðufé. Mér finnst það eiginlega krafan sem hefur orðið ofan á. Í langflestum tilfellum er það fyrirkomulag í boði.

Síðan langar mig, sem er ekki síður mikilvægt, að spyrja hvort ráðherra hefur hugmynd um hversu algengt hlutfallslega það sé að þörf sé á útburði í kjölfar riftunar. Oft er verið að búa til lög utan um einstaka aðila, sem gera almenningi mjög erfitt fyrir (Forseti hringir.) að geta lifað eftir því kerfi sem við leggjum til.