145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

trygging fyrir efndum húsaleigu.

313. mál
[16:04]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn á ný fyrir þessar fyrirspurnir. Ég veit að henni er annt um þetta mál því að hún hefur sjálf mikla reynslu af leigumarkaðnum.

Ég ítreka það sem ég sagði í svari mínu að áfram er gert ráð fyrir öðrum ábyrgðum og tryggingum sem leigjendur geta boðið, svo sem bankaábyrgð, sjálfskuldarábyrgð þriðja aðila og leigugreiðslu- og viðskilnaðartryggingu. Svo er nýmælið sem ég nefndi varðandi samtryggingarsjóð. Það hefur reynst mjög vel til dæmis hjá einu stærsta leigufélagi sem við höfum, sem er Félagsstofnun stúdenta.

Það var líka tekin ákvörðun í samráði við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin um það sem sneri að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi. Hugmyndir höfðu verið um að það ætti að vera einhvers konar íbúðargreiðsla eða framlag leigjanda við að taka íbúð á leigu en fallið var frá því. Það er ekki gert ráð fyrir að það verði neitt annað en það sem tengist húsaleigulögunum varðandi nýja félagslega leiguíbúðakerfið.

Ég vil jafnframt taka undir það sem hv. þingmaður nefndi, þ.e. áhersluna sem ég talaði um, að horfa til heildarinnar, til allra tillagna sem munu koma hér fram. Ég vil nefna til dæmis húsnæðissamvinnufélögin. Þó að þar sé talað um búseturétt, það sé orðið sem við notum um það, þá erum við enn á ný að reyna að setja ákveðnar takmarkanir á því hversu hátt gjald er hægt að rukka fyrir búseturéttinn. Við erum að ramma betur inn það sem snýr að tryggingum, auk þess sem við leggjum mikla áherslu á að búa hér til öflugt, sjálfbært, nýtt félagslegt leiguíbúðakerfi til framtíðar.