145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

niðurstöður og úrbótatillögur í skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum.

335. mál
[16:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram nokkrar fyrirspurnir um ofbeldi gegn fötluðu fólki og hef líka lagt fram fyrirspurn til innanríkisráðherra, síðan eru fyrirspurnir sem eiga við hæstv. félagsmálaráðherra.

Fyrir nokkrum árum var gerð rannsókn fyrir velferðarráðuneytið sem skilað var, ef ég man rétt, í september 2013 í formi skýrslu sem fjallaði um ofbeldi gegn fötluðum konum Markmiðið var fjölþætt. Það var meðal annars að gera grein fyrir eðli ofbeldis gegn fötluðum konum og fjalla um muninn á því ofbeldi sem einstaklingar beita fatlaðar konur annars vegar og stofnanabundnu ofbeldi hins vegar. Þetta er viðamikil greining sem ég hvet fólk til að skoða vel. Þetta byggir á djúpviðtölum við 13 fatlaðar konur sem höfðu orðið fyrir ofbeldi til að reyna að átta sig á því við hvaða aðstæður þær urðu fyrir því. Í þessari skýrslu eru, þetta er 50 síðna skýrsla, töluvert margar tillögur að úrbótum, meðal annars er verið að leggja hér til að ráðist sé í frekari rannsóknir á ákveðnum þáttum.

Það kemur fram í þessari skýrslu að flestar þessar konur hafa átt sér langa sögu um undirokun og ofbeldi, margháttað ofbeldi, allt frá einelti í æsku til kynferðislegs ofbeldis af hendi maka eða starfsfólks á heimilum fyrir fatlað fólk. Í skýrslunni segir beinlínis að ljóst sé að staða þeirra sem fatlaðra kvenna hafi ýtt undir ofbeldið. Þess vegna tel ég að það skipti mjög miklu máli að við náum að taka höndum saman um að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að efla þessar konur og koma þeim í þannig stöðu að þær geti komist undan þessu ofbeldi sem þær hafa margar hverjar, allt of margar, orðið fyrir.

Í þessari skýrslu er til dæmis lagt til að fatlað fólk fái í auknum mæli meira sjálfstæði, fjárhagslegt sjálfstæði annars vegar og líka sjálfstæði hvað varðar búsetu og það hvernig fólk hagar sínu lífi. Þar er sérstaklega talað um NPA.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður framkvæmdum á þeim tillögum til úrbóta sem nefndar eru í þessari skýrslu? Þá langar mig líka að spyrja varðandi NPA, hver staða þess og framtíð sé í þessu ljósi. Ég held að það skipti mjög miklu máli að fatlaðar konur og fatlað fólk almennt fái frelsi til að lifa sínu lífi eins og þau þurfa og að við valdeflum þau, þ.e. að þeim sé í auknum mæli gefið vald yfir sínu eigin lífi.