145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

niðurstöður og úrbótatillögur í skýrslu um ofbeldi gegn fötluðum konum.

335. mál
[16:20]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og þær ábendingar sem hafa komið fram í henni. Eins og var bent hér á þá átti ég eftir að svara hluta af spurningunni og þá vil ég vísa til framkvæmdaáætlunar um málefni fatlaðs fólks en þar er einmitt skýrt kveðið á um að umgjörð heimilis fatlaðs fólks skuli fullnægja á almennum viðmiðum og herbergjasambýli sem ekki uppfylla slík viðmið skuli lögð niður í áföngum. Eins og við höfum rætt hér hefur verið sýnt fram á að hættan á skerðingu á sjálfræði íbúa er mest í húsnæðisúrræðum sem ekki uppfylla slík almenn viðmið. Herbergjasambýlum hefur fækkað verulega frá 2011 og samhliða hefur sértækum búsetuúrræðum fjölgað þar sem þjónusta er miðuð að einstaklingnum í eigin íbúð. Með slíkum breytingum fækkar þeim áhættuþáttum sem leiða til skerðingar á sjálfræði og er í samræmi við áætlun í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Réttindagæslumenn heimsækja heimili fatlaðs fólks í sértækum búsetuúrræðum og kynna íbúunum hlutverk sitt og kynna sér viðhorf starfsfólks þar og koma með ábendingar ef þurfa þykir.

Ég vil líka nefna þá samvinnu sem hefur verið að þróast á síðasta eina og hálfa ári og er að komast á milli rannsóknarlögreglu og réttindagæslumanna í ljósi þeirrar vitundarvakningar sem er að verða í samfélaginu. Ég vil nefna frumkvæði lögreglunnar á Suðurlandi og það mun auka á réttaröryggi fatlaðs fólks á heimilum sínum. Varðandi NPA þá tek ég svo sannarlega undir mikilvægi þess að notendastýrð persónuleg aðstoð sé valkostur og það þarf að efla fræðslu til fatlaðs fólks um úrræðin. Árið 2012 voru í gildi 20 samningar um notendastýrða persónulega aðstoð á tíu þjónustusvæðum en í október 2015 voru þau 55 talsins á tíu svæðum. Þetta tengist því að komið var á tilraunaverkefni til að stuðla að innleiðingunni. Því er hins vegar ekki lokið og við höfum átt í samtali við sveitarfélögin um þær áherslur sem þarf að setja til að við getum lokið við verkefnið og lögfest úrræðið.