145. löggjafarþing — 38. fundur,  23. nóv. 2015.

biðlisti vegna greiningar á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD).

318. mál
[16:36]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda og þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni góð orð um mikilvægt mál. Ég tek þeirri brýningu sem hér er sett fram og sömuleiðis loforðum um stuðning við að vinna að úrbótum í þessu efni.

Ég vil einnig segja að það er oft og tíðum mikilvægt að reyna að koma auknum fjármunum til vinnslu í svona verkefnum, en það getur líka verið skynsamlegt að teikna upp betri greiningu og nýja verkferla áður en farið er að verðleggja verkefnin og berjast fyrir að ná fjármunum inn.

Ég vil enn fremur nefna að ég er meðvitaður um þá vankanta sem fylgja því að vera með langa biðlista hér og þar í kerfinu. Varðandi stöðuna sérstaklega í sambandi við ADHD þá ákvað ég einfaldlega að setja börn í forgang þegar ég var að leita að fjármunum til að koma inn í kerfið. Þar til ég sé fram á nýja digra sjóði, sem vonandi koma með birtu og yl næsta árs, hef ég látið þetta duga.

Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram. Það er full ástæða til að skoða þetta í stærra samhengi líka, jafnvel á Norðurlandi eða út frá stærri stofnunum, og hafa sömuleiðis samráð við fulltrúa sjúklinga eins og í ADHD-samtökunum þegar við ræðum lengri tíma stefnumótun.

Eins og hv. þingmenn heyra á mér er ég enn að viða að mér upplýsingum. Ég bíð sömuleiðis og vil ítreka það eftir niðurstöðu Ríkisendurskoðunar á fyrirkomulagi þessara þátta. Ég vænti þess að þar verði til ákveðinn grunnur fyrir okkur til að standa á um úrbætur.