145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera að umtalsefni stöðu stjórnarskrármálsins og vinnu nefndar allra flokka um breytingar á stjórnarskrá. Nokkrir mánuðir hafa liðið án þess að nefndin komi sér að niðurstöðu sem þó hefur legið í loftinu. Forustumenn stjórnarflokkanna hafa gefið opinberlega yfirlýsingar um að þeir vilji virkilega ljúka þessu verkefni en draga svo nefndarstarfið von úr viti. Þetta er mjög alvarlegt ástand því við þurfum nauðsynlega á því að halda að gera grundvallarbreytingar á stjórnarskrá. Við í Samfylkingunni höfum nálgast þetta verkefni með það að meginmarkmiði að tryggja tvennt í þessu ferli: rétt almennings til að kalla mál til sín í þjóðaratkvæðagreiðslu og þjóðareign á auðlindum. Það er höfuðmarkmið okkar. Það er ófært að sitja undir því að forustumenn stjórnarflokkanna dragi aðra flokka og þjóðina á svörum um það hvort þeir séu tilbúnir að viðurkenna í reynd rétt þjóðarinnar að þessu leyti.

Ef það sem ræður seinlæti forustumanna stjórnarflokkanna eru áhyggjur þeirra af því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram samhliða forsetakosningum í vor þá er rétt að segja það bara hreint út og þá eiga þeir að koma með tillögu um aðra dagsetningu. En það er ekki hægt að halda frá þjóðinni ákvörðun um þessa mikilvægu þætti. Það er orðin grundvallarþörf á því í íslensku þjóðfélagi að leikreglunum verði breytt að þessu leyti, þjóðin fái til sín aukið vald til að kalla mál í þjóðaratkvæðagreiðslu og fái almennilegt ákvæði um þjóðareign á auðlindum viðurkennt í stjórnarskrá. Stjórnarflokkarnir eru að tefla því í tvísýnu með því að afgreiða þetta mál ekki.


Efnisorð er vísa í ræðuna