145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill upplýsa að á fundi þingflokksformanna var tekin sú ákvörðun að þingflokkar fengju tækifæri til að setja á dagskrá þingmannamál eins og þeir sjálfir kysu. Það hefur allt saman gengið eftir. Það eru þrír hópar forgangsmála frá þingmönnum sem liggja fyrir, þrjú slengi eins og eðlilegt er að kalla þau.

Nú erum við stödd við lok þriðja slengisins, þ.e. það eru tvö mál eftir, mál sem hv. þingmaður vék að og mál frá þingmanni Framsóknarflokksins. Það er alveg ljóst að hin mikla umræða, sem mig minnir að hafi staðið í 14 eða 15 tíma, um mál sem kennt hefur verið við áfengi í búðir hefur gert það að verkum að önnur mál hafa ekki komist að. Auðvitað mundi forseti fagna því ef hægt væri að greiða fyrir því að koma með fleiri þingmannamál.