145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

störf þingsins.

[14:05]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég hef frekar stutta starfsreynslu á Alþingi. Eitt hefur einkennt alla þá þrjá mánuði sem ég hef verið hér og það er endalaus óreiða og skipulagsleysi. Við vitum aldrei hvað er á dagskrá. Við vitum aldrei hvað á að lesa heima. Það er aldrei hægt að fá tveggja vikna plan, þriggja vikna plan, ekki nokkurn skapaðan hlut til að geta undirbúið sig almennilega. Einnig eru alveg dæmi um að við höfum þurft að sitja fundi þar sem við eigum að ræða skýrslur sem við höfum ekki einu sinni fengið í hendurnar. Mér þykir það mjög einkennileg vinnubrögð yfir höfuð. Grunnskólar landsins mundu ekki bjóða upp á þetta. Menntaskólar landsins mundu ekki bjóða upp á þetta. Háskólar landsins mundu ekki bjóða upp á þetta. Ég skil ekki af hverju Alþingi Íslendinga lætur bjóða sér upp á slíkt skipulagsleysi.

Það er ekkert gegnsæi þegar kemur að því hvernig dagskrá þingsins er háttað, um hver fær að halda sérstakar umræður eða eitthvað því um líkt og það virðast vera duldar reglur, sem erfitt er að finna út hverjar eru, um hvaða mál megi komast á dagskrá.

Þetta skipulagsleysi og endalausa ógagnsæi er ekkert annað en valdníðsla. Þarna er verið að koma í veg fyrir að fólk geti mætt undirbúið til þingstarfa sem náttúrlega gerir það að verkum, og kemur sérstaklega niður á minni hlutanum, að við getum ekki tekið jafn vel á málunum.

Þetta skipulagsleysi Alþingis er form af valdníðslu og það ber að laga.


Efnisorð er vísa í ræðuna