145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

starfsumhverfi lögreglunnar.

[14:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er mikilvægt að vel sé búið að almennri löggæslu í landinu. Fækkun lögreglumanna í einstökum umdæmum allt frá árinu 2007 er vissulega mikið áhyggjuefni sem bregðast verður við og mikilvægt að þeir auknu fjármunir sem setja á í málaflokkinn nýtist til eflingar lögreglunnar og þar þarf sérstaklega að horfa til landsbyggðarinnar í þeim efnum þar sem lögregluembætti eru víða undirmönnuð.

Í skýrslu um eflingu lögreglunnar sem skilað var til þáverandi innanríkisráðherra í febrúar 2013 eru þrjú forgangsatriði áréttuð. Í fyrsta lagi að fjölga almennum lögreglumönnum sem annast útköll og almennt lögreglueftirlit. Í öðru lagi að styrkja sérhæfðar deildir lögreglunnar á öllum sviðum. Í þriðja lagi að bæta búnað og þjálfun lögreglunnar. Allt eru þetta atriði sem brýnt er að bæta úr. Það er öllum ljóst að lögregluembættin stóðu frammi fyrir miklum niðurskurði eftir hrunið og það hefur langt í frá gengið til baka. Því er brýnt að bæta úr því með auknum fjármunum og horfa til þeirra þátta sem upp hafa verið taldir sem forgangsmál, eins og eflingu almennu löggæslunnar.

Sú hryðjuverkaógn sem birtist okkur um þessar mundir í heiminum, nú síðast í París með hrikalegum morðum á saklausu fólki, má ekki verða til þess að við tökum afdrifaríkar ákvarðanir í kjölfarið, t.d. með auknum vígbúnaði lögreglu, svo sem með því að bera skotvopn. Lögreglan verður að geta tekist á við ytri ógn með auknum mannafla og vera sem mest sýnileg og til taks þegar á reynir. Við höfum okkar sérsveit í erfið verkefni, en mest um vert er að efla almenna löggæslu í landinu. Þá er einnig mjög mikilvægt að aðbúnaður og starfskjör og kjör lögreglunnar séu góð svo til lögreglunnar veljist hæfir einstaklingar.