145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[14:56]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka umræðuhefjanda, hv. þm. Heiðu Kristínu Helgadóttur, fyrir að vekja máls á þessu þarfa og brýna máli. Það er mjög alvarlegt mál með hvaða hætti fjárveitingar til að efna almenningssamgöngusamkomulagið af hálfu ríkisins hafa minnkað ár frá ári. Þegar við þingmenn funduðum með forsvarsmönnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu var þetta eitt stærsta umkvörtunarefnið. Það er ljóst að sveitarfélögin hafa lagt fram miklar fórnir fyrir þetta samkomulag. Þau féllu til dæmis frá rétti til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna almenningsfarartækja. Það er ófært að ekki sé hægt að gera samninga sem standast við hið opinbera, við ríkið, við aðstæður sem þessar.

Hér hafa verið höfð nokkur orð um það hversu mikilvægt þetta samkomulag sé til að byggja upp vistvænni byggðaþróunarmöguleika. Ég sakna þess að það að efna þetta samkomulag og auka fjárfestingar í almenningssamgöngum sé ekki sérstakt markmið ríkisstjórnarinnar nú þegar þarf að koma með fyrirheit af Íslands hálfu til þess að efna þau loforð sem ríkisstjórnin hefur gefið um 40% samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030. Það er ekkert sem Ísland getur gert sem hentar okkur betur til að efna þetta fyrirheit og er okkur betri fjárfesting í heppilegri uppbyggingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu en að fjárfesta verulega í almenningssamgöngum. Ríkið ætti þar af leiðandi að sjá sóma sinn í því í fyrsta lagi að efna samkomulagið sem þegar hefur verið (Gripið fram í.) gert og fjárfesta svo af miklum krafti áfram í frekari uppbyggingu almenningssamgangna.

Síðan er það sérstakt umræðuefni að ræða aðkomu ríkisvaldsins að (Forseti hringir.) uppbyggingu á almenningssamgöngum vítt og breitt um land, sem þörf er á. Miklar breytingar hafa orðið með tilkomu (Forseti hringir.) Strætó um allt land en það þarf meiri stuðning af hálfu ríkisins til að það kerfi geti gengið upp.