145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[14:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að ég fagnaði því mjög á sínum tíma þegar samkomulag var gert um að styrkja almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og tekin var dálítið önnur stefna í samgöngumálum höfuðborgarsvæðisins. Ég lít á þetta sem spurningu um lífsgæði. Ég er höfuðborgarbúi og lít á það sem spurningu um lífsgæði að helmingi alls landrýmis sé ekki varið undir umferðarmannvirki, hvort sem þau heita bílastæði eða vegir, heldur sé aðgengi mitt að góðum almenningssamgöngum einmitt tryggt, mitt og þeirra kynslóða sem koma á eftir mér og vilja sleppa við að eyða formúu í bíla.

Það er í raun alveg ótrúlegt árið 2015 að við séum ekki einu sinni komin með svifbretti heldur séum enn að kaupa tonn af málmi og gleri til að komast á milli staða, eyða til þess ómældum fjármunum og losa ómældar gróðurhúsalofttegundir í flestum þessara einkabíla, því miður. Almenningssamgöngur geta vissulega hjálpað okkur að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, hjálpað Íslendingum að ná sínu markmiði fyrir Parísarfundinn, sem er að draga hér úr losun og taka þátt í að dregið verði úr losun um 40%. Þær geta líka bætt lífsgæði almennings sem vill einmitt fá ódýrar og góðar og hraðar samgöngur. Mér finnst mjög mikilvægt að strætó sé slíkur valkostur, með tíðar ferðir. Ég styð eindregið þá framtíðarsýn sem framsögumaður þessa máls, hv. þm. Heiða Kristín Helgadóttur, fór hér yfir um borgarlínu þar sem við yrðum annaðhvort með sporbundnar samgöngur eða hraðvagna sem mundu tryggja tíðar ferðir milli helstu áfangastaða á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar samgönguáætlun mun koma fram og við fáum loksins tækifæri til að samþykkja samgönguáætlun, en það tækifæri hefur því miður ekki gefist mörg undanfarin ár, þá vona ég svo sannarlega að tekið verði mið af þessari framtíðarsýn því að við eigum auðvitað að endurskoða samgöngumáta okkar og þar eru tækifærin mest í þéttbýlinu. Ég brýni hæstv. ráðherra til að leggja fram metnaðarfulla framtíðarsýn í þessum efnum.