145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[15:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að maður heyrir oft ýmsar hugmyndir um hvernig mætti bæta almenningssamgöngur á Íslandi. Margir hafa alls kyns drauma um lestir og því um líkt. Ég verð að segja fyrir mig að ég nota strætó mjög mikið og hlýt að kallast aðdáandi strætós. Ég hef búið í þremur löndum þar sem ég hef notað strætó mjög mikið. Ég verð að segja að strætósamgöngur á Íslandi eru ekkert jafn bölvanlegar og fólk heldur. Almenningssamgöngur eru almennt ekkert jafn bölvanlegar og fólk heldur. Hér á okkar yndislega landi er sérstök óþolinmæði þegar kemur að bið af nokkurri sort, sem er styrkur en jafnframt veikleiki. Sömuleiðis er kvartað mikið undan verði. Það er auðvelt fyrir einhvern á þingfararkaupi að kvarta ekki undan verði en mér finnst það ekki óhóflegt. Alltaf þegar verðið hækkar er kvartað undan því, alltaf eru menn hissa á að verðlagið hækki.

Svo er hitt: Ég velti fyrir mér hvort gæti verið skynsamlegt fyrir Reykjavíkurborg, sem væri væntanlega í verkahring sveitarfélaganna að finna út úr, vegna heildaráhrifanna á höfuðborgarsvæðinu að hafa strætó hreinlega ókeypis. Ég velti sér í lagi fyrir mér hver áhrifin yrðu út á við, hvernig mynstrið mundi breytast. Þetta hefur verið prófað á Akureyri, veit ég, en auðvitað eru aðstæður ekki eins þar. Þetta eru hugmyndir sem mér þykja mjög áhugaverðar og fólk ætti ekki að henda þeim út af borðinu sisvona vegna þess að því finnst að þetta eigi að kosta eitthvað. Auðvitað á þetta að kosta eitthvað, þetta er einn af innviðum samfélagsins sem gerir okkur kleift að gera allt annað sem við gerum í okkar daglega lífi. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að hafa þetta í lagi, jafnvel ef við notum ekki samgöngurnar sjálf. Það er ekki bara gott fyrir þann sem ferðast með strætó, það er gott fyrir samfélagið, nauðsynlegt fyrir efnahaginn og nauðsynlegt fyrir innviði samfélagsins í heild sinni.