145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[15:05]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa góðu umræðu. Það skiptir máli þegar við horfum fram í tímann að við setjum almennilega stefnu og miðum ekki allt út frá stöðunni eins og við þekkjum hana í dag. Ég fagna orðum hæstv. innanríkisráðherra um þá stefnumörkun sem er í vinnslu og í vændum. Það skiptir miklu máli. Það er ekki eintómur vísindaskáldskapur að sjá fyrir sér lestir á höfuðborgarsvæðinu eða miklar breytingar á almenningssamgöngum frekar en það var vísindaskáldskapur að sjá fyrir sér tvöföldun höfuðborgarsvæðisins að flatarmáli frá 1985.

Það skiptir miklu máli fyrir líf íbúa Íslands að landsvæðin þróist áfram, bæði landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Sterkt höfuðborgarsvæði er mikilvægt fyrir landsbyggðina og öfugt. Höfuðborgarsvæðið þarf að bjóða upp á lífsstíl fyrir íbúana sem er sambærilegur og samkeppnishæfur við þann lífsstíl sem borgir erlendis og önnur lönd bjóða upp á. Það er eftirsóknarvert í sjálfu sér að bjóða upp á lífsstíl þar sem hægt er að lifa góðu lífi og ganga erinda sinna án þess að eiga tonn af stáli og gleri, eins og hv. þingmaður orðaði það hérna áðan, og borga miðað við viðmiðunartölur FÍB upp undir milljón eða meira á ári fyrir það tonn, að bjóða upp á möguleikann á lífstíl án þess að vera háður þessum útgjöldum og tonnum. Við heyrum umræðu um mínímalískan lífsstíl. Allar líkur eru á að breytingar í umhverfismálum muni neyða okkur til þeirrar breytingar (Forseti hringir.) fyrr eða seinna. Það er mikilvægt að bjóða upp á þann valkost áður en við neyðumst til að breyta til.