145. löggjafarþing — 39. fundur,  24. nóv. 2015.

almenningssamgöngur og uppbygging þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

[15:14]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Heiðu Kristínu Helgadóttur fyrir að koma þessu máli að og hæstv. ráðherra Ólöfu Nordal fyrir sitt innlegg. Af umræðunni hér má merkja mjög vel þá viðleitni að efla almenningssamgöngur almennt. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra og öðrum hv. þingmönnum sem tala um mikilvægi hins heildræna samhengis í samgöngumálum og hlutverk almenningssamgangna í því tilliti. Þar finnst mér sérlega áhugaverður hinn félagslegi lýðheilsu- og umhverfislegi vinkill en auðvitað eru samgöngumál samofin atvinnulífinu og um leið alveg sérlega mikilvæg stoð þegar litið er til ferðaþjónustu. Uppbyggingin og öll skipulagshönnun er ekkert síður mikilvæg athafnalífi okkar og menningu og hefur áhrif á það hvernig við forgangsröðum og veljum ferðamáta, hvernig við veljum að ráðstafa tíma okkar á milli vinnu og frítíma og í tómstundir. Því er mikilvægt að við skipuleggjum almenningssamgöngur og umhverfi með það í huga að við ýtum undir umhverfis- og vistvænan en jafnframt raunhæfan ferðamáta og tengingar við og milli allra samgöngumannvirkja um landið allt sem er ekki síður mikilvægt.

Við hönnum þá mannlífsmynd sem við viljum sjá og hafa. Hér þarf auðvitað langtímahugsun og þá sýn sem hæstv. ráðherra kom inn á um breiðar, öruggar og ásættanlegar almenningssamgöngur. Þá þarf auðvitað að kalla til aðila frá báðum stjórnsýslustigum og ekki síst á hið beina lýðræði að vera í hávegum haft.